Fjölskylda bandaríska leikarans David Carradine segist vera í miklu uppnámi eftir að ljósmyndir voru birtar af líki leikarans í taílensku dagblaði. Lögreglan telur að um myndir frá tæknideild lögreglunnar sé að ræða og að þeim hafi verið lekið í fjölmiðla.
Keith Carradine, hálfbróðir leikarans, hefur hótað málsókn verði brotið gegn friðhelgi einkalífs fjölskyldunnar.
Þá hefur hann óskað eftir því að bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsaki málið.
Lík David Carradine fannst í hótelherbergi í Bangkok sl. fimmtudag. Lögreglan segir að hann hafi verið nakinn með reipi bundið um hálsin á sér.
Myndirnar, sem birtust í taílenska dagblaðinu, eru sagðar sýna lík leikarans í hótelherberginu.
Dánarorsökin liggur enn ekki fyrir.