Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur brugðist hart við og gert lögmönnum sínum að hefja aðgerðir gegn spænska dagblaðinu sem birti myndir af nöktum karlmanni og berbrjósta konum sprangandi um í sumarhúsi forsætisráðherrans á eyjunni Sardiníu.
Berlusconi hefur ítrekað fyrri staðhæfingar um að hann hafi ekki átt í neinu óviðurkvæmilegu sambandi við 18 ára fyrirsætu, Noemi Letizia, einni kvennanna sem hafa verið gestir á villu forsætisráðherrans. Hann segist munu segja af sér samstundis ef sýnt verið fram á að hann hafi logið um samband sitt við stúlkuna.
Lögmaður Berlusconi, Niccolo Gnedini, segir að hann sett sig í samband við lögmann í Madrid með það fyrir augum að stefna blaðinu El País, m.a. vegna þess að myndirnar sem blaðið birti sé fengnar með glæpsamlegum hætti. „Myndirnar eru í sjálfu sér sárasaklausar en þar var brotið gegn friðhelgi einkalífsins,“ segir hann.
Myndirnar sem birtust í El País voru teknar af ítalska ljósmyndaranum Antonelli Zappadu sem smellti af um 300 myndum utan hliðs villunnar. Þær voru gerðar upptækar af saksóknara í Róm að kröfu Berlusconi. Áður hafði Zappadu selt myndir til birtingar utan heimalandsins.
Hinn 24. júní 2004 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp frægan dóm í málinu „Hannover v. Germany“. Málið snerist um birtingu fjölda mynda af Karólínu prinsessu af Mónakó í þýsku blöðunum , Bunte, Neue Post og Freizeit Revue, einkum af henni og eiginmanni hennar prins Ernst-August af Hanover.
Niðurstaða dómstólsins var sú að ekki hefði verið heimilt
að birta myndirnar án hennar samþykkis,
jafnvel þótt þær hafi verið teknar á almannafæri. Dómurinn staðfestir
að allir eiga rétt á friðhelgi einkalífs, óháð því hversu þekktir þeir
eru, nema um sé að ræða umfjöllun sem varði hagsmuni almennings. Myndbirtingarnar úr villu Berlusconi ganga að því leyti ennþá enn lengra þar sem þarna var um einkasamkvæmi að ræða.