Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Danadrottningar sagði í samtali við blaðamann Berlingske Tidende í gær að hann vilji sjá karla gerða jafn réttháa stúlkum. Danir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag að breyta lögum um ríkiserfðir þannig að dætur verði jafn réttháar sonum til ríkiserfða.
Prinsinn neitaði að tjá sig um það hvað honum þætti um lagabreytinguna en til þessa hefur enginn meðlima dönsku konungsfjölskyldunnar viljað tjá sig um málið.Spurður um afstöðu sína til jafnréttis innan konungsfjölskyldunnar sagði hann hins vegar: „Ég stend fast við mitt í því. Ég vona að karlar verði jafn réttháir stúlkum. Síðan vildi ég gjarnan snúa málinu við og spyrja þjóðina: Hvað finnst ykkur um jafnrétti?”
Prinsinn hefur áður gagnrýnt það að karlar sem giftist drottningum fái lægri tign en konur sem giftist konungum. Þannig verða eiginmenn drottninga prinsar eða drottningarmenn en eiginkonur konunga verða drottningar. Hann hefur einnig kvartað undan því að hafa lægri titil en sonur hans krónprinsinn og þar af leiðandi lægri virðingarsess.