„Maður vill auðvitað standa undir væntingum,“ segir Ólöf Jara Skagfjörð sem fer með hlutverk Sandy í söngleiknum Grease, sem frumsýndur verður í Loftkastalanum næstkomandi fimmtudag.
„Fólk hefur sterkar skoðanir á því hvernig Sandy eigi að vera og það er því enn meiri pressa á að standa sig vel.“
Bjartur Guðmundsson tekur undir þetta, en hann fer með hlutverk Danny.
„Ég hef átt tilgangslausar rökræður við vini mína sem sögðu að ég þyrfti nauðsynlega að lita á mér hárið fyrir hlutverkið þar sem Danny væri dökkhærður. Ég hélt nú ekki,“ segir Bjartur og þau eru sammála um að hárliturinn skipti ekki miklu máli í þessu samhengi.
„Ég sá myndband á YouTube um daginn frá uppfærslu á Grease í Kóreu og þar voru allir leikararnir dökkhærðir,“ segir Ólöf Jara. „Þetta er því ekkert tiltökumál.“
Þau Bjartur og Ólöf Jara voru valin í hlutverkin fyrir rúmum fimm vikum og hefur æfingaferlið verið stutt en annríkt.
„Þessar fimm vikur hafa verið endalaus keyrsla. Enda sést það á leikurunum, það eru allir meira og minna veikir,“ segir Ólöf Jara og sýpur á tei til að lappa uppá röddina. „Þetta er þó búið að vera mjög skemmtilegt.“
„Ég hafði hinsvegar engar áhyggjur. Ég hef unnið svo mikið með Selmu og ég veit hvað hún er rosalega skipulögð,“ segir Ólöf Jara og á að sjálfsögðu við leikstýru verksins, Selmu Björnsdóttur.
„Já, hún hefur sko heldur betur staðið sig vel, hún er alveg frábær,“ segir Bjartur.
Það mæðir talsvert á leikurunum í sýningunni, sem þurfa að leika, syngja og dansa auk þess að skipta grimmt um búninga.
„Við vorum með forsýningu í fyrsta skipti í gær og svitinn bókstaflega bogaði af mörgum í leikhópnum,“ segir Bjartur.
Þetta mun vera í þriðja sinn sem Grease er sett upp á Íslandi af atvinnuleikhúsi. Telja þau Bjartur og Ólöf Jara að eitthvað sérstakt einkenni þeirra uppsetningu?
„Ja... kannski nálægðin við áhorfendur,“ segir Ólöf Jara. „Hinar sýningarnar, 1998 og 2003, voru settar upp á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu sem er svolítið mikið stærra pláss en við höfum hér í Loftkastalanum.“
„Mér finnst það mikill kostur. Nálægðin við áhorfendur skiptir miklu máli í leikhúsi og hér er hún algerlega til staðar,“ samsinnir Bjartur.
„Þannig að þessi uppfærsla hlýtur að vera best þeirra þriggja, er það ekki?“ segir Ólöf Jara.
„Já, eigum við ekki bara að segja það,“ samsinnir Bjartur.
Menn geta svo gert upp hug sinn hvort þetta reynist rétt vera hjá þeim Ólöfu Jöru og Bjarti með því að sjá Grease í Loftkastalanum frá og með morgundeginum.