Mugison hefur fengið styrk upp á 1,4 milljónir króna frá Menningarráði Vestfjarða til að búa til nýtt hljóðfæri. Styrkurinn var þó ekki einvörðungu fyrir þetta nýja hljóðfæri heldur jafnframt vegna útgáfu á plötu Mugisons þar sem hann syngur frumsamin lög á íslensku og fyrir tónleikaferð um landið þar sem hann hyggst leika á fimmtíu heimilum.
Þetta kemur fram á vestfirska fréttavefnum Bæjarins besta.
Hann kemur til með að spila inni í stofu
hjá fólki og mætir með þetta nýja hljóðfæri, eða ferlíkið, eins og hann kallar
það. Mugison segist stela hugmyndafræðinni á bak við takkaharmonikku við hönnun
hljóðfærisins. „Grunnhugmyndin á bak við hljóðfærið er að geta spilað eins og á
takkanikku, sem er með mjög vítt tónsvið. Svo verður bassa- og hljóma-„setup“
fyrir vinstri höndina. Framan á henni verða alls konar rafmagnstæki. Þannig eins
og í gamla daga get ég „samplað“ sjálfan mig og spilað alls konar drasl sem ég
verð með tengt þráðlaust í tölvuna og get þar af leiðandi gert ótrúlegustu
hluti,“ segir Mugison.
Nýja hljóðfærið inniheldur einnig „ljósashow“ og
hljóðnema. Hann getur því rennt heim í stofu hjá fólki, stungið öllu í samband
og spilað á staðnum. Hann segir hugmyndina hafa verið í kollinum á sér í mörg
ár. „Þetta er gamall draumur hjá mér af því ég var alltaf einn með fullt af
græjum en mig langaði alltaf að taka allar græjurnar í sundur og búa til
eitthvað sem væri meira „praktískt“ heldur en einhver græja sem maður notar bara
þrjá takka af. Mig langaði að einfalda allt og setja í eina græju þannig að hún
sé mjög aðgengileg en jafnframt músíkölsk,“ segir Mugison.
Hann hefur oft
rætt hugmyndina við Ísfirðinginn Pál Einarsson, sem er iðnaðarhönnuður. Hann
hefur starfað sem hljóðmaður hjá Mugison og þeir hafa rætt hugmyndina í gegnum
árin hvernig best væri að hafa hljóðfærið. „Svo datt mér í hug að sækja styrk
fyrir þessu dæmi svo ég hefði efni á að taka frá smá tíma til að vinna þetta
hljóðfæri. Það yrði frekar erfitt fyrir mig að gera þetta án styrksins því ég
lifi á að búa til tónlist og flytja hana og yrði erfitt að taka frá sex vikur í
þetta verkefni. Það var því mjög flott að fá þennan styrk og þá getur Palli
komið vestur í sumar og klárað dæmið með mér,“ segir Mugison.
Ekki er
komið nafn á hljóðfærið en Mugison hvetur fólk til að senda inn ábendingar á vef
hans.