Tami Farrell, ný fegurðardrottning Kaliforníu-ríkis í Bandaríkjunum hefur greint frá því að hún sé sammála Carrie Prejean, sem svipt var titlinum í gær, varðandi hjónabönd samkynhneigðra. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Prejean hélt því fram fyrr á þessu ári að sú skoðun hennar að hjónaband ætti einungis að vera á milli karls og konu hefði kostað hana titilinn „ungfrú Bandaríkin". Prejean var svipt titlinum sem „ungfrú Kalifornía" í gær þar sem forsvarsmenn keppninnar segja hana ekki hafa staðið við samningsskilyrði.
Farrell sagði í sjónvarpsviðtali á Fox News sjónvarpsstöðinni í morgun að hún teldi einnig að hjónaband ætti einungis að vera á milli karls og konu. Hún bætti því þó við að hún teldi hvorki sig né aðra hafa rétt til að segja öðrum hverja þeir mættu eða mættu ekki að elska.
Þá sagðist hún telja að um mannréttindamál væri að ræða sem rétt væri að fela í hendur kjósenda. Þegar hún var beðin um að skýra það nánar sagði hún: „Veistu það að mér finnst fáránlegt að nú sé litið til fegurðardrottninga eftir svörum við þessu. Mér finnst þetta vera mikilvægt mál en ég lít ekki á það sem baráttumál mitt. Ég vil ekki að þetta valdi meiri deilum en það hefur þegar gert."