Skjár Einn stendur vaktina í íslenskri þáttagerð með prýði nú um stundir. Nýtt útlit – sem vakti gríðarlega athygli – hefur nýlokið göngu sinni en brátt fara í loftið tveir nýir þættir. Magasínþátturinn Monitor, sem tengist samnefndu riti, fer í loftið 24. júní og tveimur dögum fyrr verður nýr matreiðsluþáttur, Matarklúbburinn, frumsýndur. Þátturinn er í umsjón Hrefnu Rósu Sætran, margverðlaunaðs landliðskokks en hún er jafnframt eigandi og yfirkokkur á veitingastaðnum Fiskmarkaðnum.
„Það hefur vantað svona þátt í íslenskt sjónvarp og þetta efni er gríðarlega vinsælt. Ég veit að margir horfa t.d. mjög stíft á BBC Food,“ segir Hrefna.
„Við setjum þetta þannig upp að ég er í heimaeldhúsi. Ég er ekki í kokkagalla, þannig að sniðið er afslappað og óformlegt, a la Nigella og Jamie Oliver. Við reynum að hafa þetta létt og skemmtilegt en þetta gengur út á að gefa fólki hugmyndir um hvað er hægt að gera og „afrugla“ hlutina. Fólk sér kannski flókna rétti á veitingastöðum sem eru síðan ekkert flóknir ef nánar er að gáð.“
Hrefna segir þættina, sem verða hálftíma langir, þemabundna, í einum þætti verður sýnt hvernig elda skal fyrir fjölskyldu, svo er saumaklúbburinn tekinn fyrir, kósíkvöld kærustuparsins o.s.frv.
„Svo koma gestir í endann og borða það sem ég hef verið að matreiða. Það fer ekkert til spillis!“