Söngkonan Katy Perry hefur hótað áströlskum fatahönnuði, Katie Perry, málsókn ef hún hættir ekki að notast við nafn sitt á fatnaðinn, og það þó það sé ekki eins skrifað. Fatahönnuðurinn sem setti föt sín á markað undir eigin nafni fyrir tveimur árum segist furðu lostin yfir hótununum og ætlar ekki að verða við kröfunni.
Katie Perry segir í samtali við ástralska fjölmiðla að í bréfi frá lögmönnum söngkonunnar sé farið fram á að fatahönnuðurinn hætti að nota nafnið, taki allar vörur sínar af markaði, hætti að auglýsa og notist í framtíðinni ekki við vörumerki sem svipi til Katy Perry.
Fatahönnuðurinn segist hafa brostið í grát við lestur bréfsins enda hafi það verið mjög ógnandi. Eftir stutta umhugsun herti Perry þó upp hugann og ætlar að berjast fyrir nafni sínu og vörum, enda hafi hún ekki verið að reyna hagnast á frægð söngkonunnar.