Gísli Friðgeirsson kom í gærkveldi að landi í Bolungarvík en hann freistar þess um þessar mundir að verða fyrsti Íslendingurinn til að róa kajak kringum Ísland. Gísli lagði af stað frá Reykjavík þann 1. júní og segir að mikilvægur hluti ferðarinnar sé nú að baki.
„Vesturlandið getur verið erfitt, eins og þeir segja hérna fyrir vestan þá er þetta allt upp í mót á kortinu,“ segir Gísli og hlær. Siglingin hefur gengið vel og veðurguðirnir hafa sýnt ræðaranum velvilja. Gísli segir þá breytingu á lífsmynstri sem fylgir því að róa allt að sextíu kílómetra á dag ekki hafa tekið of mikið á hann en Gísli verður 66 ára á þessu ári. „Bara eðlileg þreyta og smá-eymsli hér og þar en allt í lagi.“ Gísli hlakkar til að halda ferð sinni áfram eftir staldrið í Bolungavík en fram undan eru Hornstrandir. Þar rennur sólin aldrei alveg til viðar á þessum bjartasta tíma ársins. „Í fyrradag þá reri ég fram á nótt og sólin settist aldrei, ég sá alltaf aðeins í hana,“ segir Gísli.