Von er titillinn á nýrri plötu sem Mannakorn hefur sent frá sér og jafnframt yfirskrift tónleika sem haldnir verða á Kaffi Rósenberg kl. 21 í kvöld.
„Okkur veitir ekki af von á þessum síðustu verstu tímum," segir Tómas Hermannsson, útgefandi Mannakorna. „Það má segja að þessi plata blási von inn í hjörtu Íslendinga. Magnús Eiríksson er svo góður í að semja hversdagslega texta, sem fjalla engu að síður um allt sem skiptir máli, ástina, vonina og trúna. - Sá maður á ekkert, sem á enga von."
Pálmi Gunnarsson og Magnús Eiríksson ásamt hljómsveit spila á tónleikunum, nýtt efni í bland við gamalt, en þeir hafa spilað saman í þrjá áratugi. Í gagnrýni um plötuna Von sagði Andra Jónsdóttir í Popplandi á Rás 2: „Einlæg, yfirlætislaus og rosalega sterk. Fullkomin plata."