„Hann fæddist þarna; pabbi hans var vitavörður og afi hans líka,“ segir Jón Karl Helgason kvikmyndagerðarmaður um Óskar J. Sigurðsson vitavörð á Stórhöfða. Jón Karl og Kristín Jóhannsdóttir í Vestmannaeyjum forsýna í Háskólabíói kl. 17 í dag nýja heimildarmynd sína um Óskar, en hún heitir Heimsmethafinn í vitanum.
„Vitinn er rúmlega hundrað ára gamall, og nú er sonur Óskars að taka við veðurathugununum af pabba sínum, vitavarðarstarfið er orðið sjálfvirkt.“
Óskar vitavörður hefur stundað veðurathuganir á Stórhöfða frá 1952, og gert merkar umhverfisrannsóknir fyrir virtustu vísindastofnanir heims. Þar fyrir utan hefur hann sett heimsmet í fuglamerkingum, merkt yfir 88 þúsund fugla, að sögn Jóns Karls. Óskar er jafnframt síðasti vitavörðurinn á Íslandi sem býr í vita.
„Óskar er búinn að vera þarna alla sína hundstíð, og þarf að taka veðrið á þriggja tíma fresti, nótt og dag, átta sinnum á sólarhring. Það hefur aðeins einu sinni klikkað hjá honum, og það var í eldgosinu, þegar hann fór í eldmessuna. Það var í fyrsta skipti sem ekkert veðurskeyti barst frá Stórhöfða. Þetta er versta veðurstöð landsins og það erfiðasta við gerð myndarinnar var að taka myndir af vonda veðrinu. Annað hvort komst maður ekki út úr bílnum og varð að hringja í Óskar úr bílnum fyrir framan vitann, eða lét sig hafa það að geta ekki staðið í lappirnar.“ Það má því fullyrða að vonda veðrið í myndinni sé alekta. Í sumar fer myndin á heimildarmyndahátíðir útí heimi og verður því ekki formlega frumsýnd hér á landi fyrr en í vetur.