Söngvarinn Morrisey brást ókvæða við er áhorfandi henti í hann plastglasi fullu af bjór á tónleikum í Ósló á föstudaginn. Hann stöðvaði tónleikana og spurði hvort áhorfendur myndu vilja vera svo vænir að kýla viðkomandi í andlitið og yfirgaf síðan sviðið.
Morrisey var í miðju lagi, Girlfriend in a coma sem hann sló í gegn með Smiths á sínum tíma þegar bjórglasið kom fljúgandi. Morrisey þurrkaði ölið framan úr sér og messaði yfir hópnum. „Þetta hefur aldrei komið fyrir áður, hefðum við kannski ekki átt að koma til Óslóar?" spurði söngvarinn sár og fór fram á að ljósin í salnum yrðu kveikt og hinn seki fundinn.
Eftir stutt hlé, kom síðan hljómsveitin aftur á svið og tónleikarnir héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist.