Þegar blaðamaður nær í Sverri er hann staddur í lest, á leiðinni til Svíþjóðar. Síminn er að verða batteríslaus. Hann og leikstjórarnir tveir að Original eru búnir að vera á ferðalagi í sólarhring, eftir að hafa dvalið í níu daga í Shanghai. Verðlaunastyttan er í töskunni og þá var myndin auk þess valin besta mynd hátíðarinnar.
„Við fórum þangað þrír saman, ég og leikstjórarnir tveir (Alexender Brøndsted og Antonio Tublén),“ útskýrir Sverrir, þreyttur en sæll. „Við áttum ekki von á neinu. Þetta er fyrsta myndin þeirra! Við vorum bara glaðir með það að komast til Shanghai og fá að keppa á þessari hátíð. Þetta var eins og að vera á Óskarsverðlaununum. Við komum alveg af fjöllum þegar þetta var tilkynnt. Ég var ekki með ræðu tilbúna eða neitt.“
Formaður dómnefndar var Danny Boyle (Trainspotting, Slumdog Millionaire) og leikkonan Andie McDowell var einnig á meðal dómara. Um frammistöðu Sverris hafði dómnefndin þetta að segja: „Snilldarlegur, næmur og húmorískur leikur þessa unga manns er ekkert minna en töfrandi.“