Breska leikkonan Greta Sacchi hefur hafið baráttu til varnar fiskistofnunum í hafinu. Liður í þeirri baráttu er að láta taka mynd af sér með íslenskum þorski, sem hún notar til að hylja nekt sína.
Bresk blöð segja frá þessu í dag og birta myndir af leikkonunni með þorskinn. Sacchi, sem er 49 ára, hefur fengið japanska veitingahúsið Soseki og ljósmyndarann Rankin í lið með sér.
„Við þurfum að stöðva þessa rányrkju í höfunum," hefur blaðið Daily Mail eftir Sacchi, sem segist hafa ákveðið að grípa til aðgerða eftir að hún sá heimildarmyndina End of the Line nýlega en þar er því spáð að fiskistofnar heimsins kunni að deyja út á næstu áratugum.
„Sem móðir og leikkona hvet ég alla til að sniðganga veitingahús, sem styðja ekki sjálfbærar fiskveiðar."
Daily Mail tekur fram að þorskurinn, sem Sacchi lét mynda sig, sé veiddur með sjálfbærum hætti og Daily Telegraph segir, að þorskurinn sé íslenskur.
Þau Richard E. Grant, Emilia Fox og Terry Gillam taka einnig þátt í herferðinni ásamt fleirum.
Scaachi var um tíma vinsæl leikkona en stjarna hennar hefur heldur farið lækkandi. Hún lýsti því yfir á síðasta ári, að hún myndi ekki fækka fötum í fleiri kvikmyndum en gagnrýnandi lýsti því m.a. yfir, þegar hann fjallaði um leikaraverðlaun, að mjótt hefði verið á mununum hvort leikkonan en hin mikilfenglegu brjóst hennar hefðu fengið tilnefninguna fyrir besta leikinn.
Frétt Daily Mail með myndum af stjörnum og þorski