Brian Oxman, sem starfað hefur sem lögmaður Jackson-fjölskyldunnar hefur greint frá því að hann hafi ítrekað varað við mikilli lyfjanotkun Michael Jackson, sem lést í gær.
„Ég hef varað við lyfjanotkun og í tilfelli Michael hef ég sagt að yrði niðurstaða harmleiksins, sú sem við erum nú að horfa upp á, myndi ég greina frá því hátt og skýrt,” sagði hann.„Þetta er eitthvað sem ég hef óttast og varað við.”
Brian sagði við sjúkrahúsið. þar sem Jackson var úrskurðaður látinn, í gær að enginn vildi talað um það sem gerst hefði. „Það var mikið uppnám um tíma en síðan varð allt algerlega hljótt. Og það vill enginn segja frá því hvað gerðist. Ég hef verið beðinn um að segja ekki frá því sem gerðist. Ég veit bara það að ég er niðurbrotinn,” sagði hann.
Sögusagnir eru á kreiki um að rekja megi lát söngvarans til lyfjamisnotkunar. Er hann sagður hafa tekið allt að sjö lyfseðilsskyld lyf að staðaldri, þeirra á meðal kvíðalyfin Xanax og Zoloft og verkjalyfið Demerol. Einnig herma óstaðfestar fréttir að hann hafi barist við húðkrabbamein og tekið sterk lyf vegna þess.
Ísraelski sjáandinn Uri Geller, sem varð frægur fyrir að beygja skeiðar, að því er virtist með hugarorkunni, segir að álagið vegna fyrirhugaðra tónleika í Lundúnum hafi orðið Jackson um megn.
Geller, sem býr í Lundúnum, var náinn vinur Jacksons. Hann segir að Jackson hafi verið mikið í mun að sanna fyrir umheiminum að hann væri enn konungur poppsins þrátt fyrir ásakanir um kynferðislegar árásir á börn, sem sköðuðu feril hans mjög.
Jackson ætlaði að halda um 50 tónleika í O2 samkomuhöllinni næsta árið, þá fyrstu í júlí. Segir Geller að Jackson hafi verið fullur af streitu og kvíða vegna tónleikanna og að hafi orðið honum um megn.