Kona, sem starfaði sem barnfóstra hjá Michael Jackson, segir í viðtali við bresk sunnudagsblöð, að hún hafi oft þurft að dæla úr maga Jacksons eftir að hann hafði tekið fjölda lyfja.
„Ég neyddist oft til að dæla út honum vegna þess að hann blandaði svo mörgum lyfjategundum saman. Um tíma var ástandið svo slæmt, að ég leyfði börnunum ekki að sjá hann. Hann borðaði allt of lítið og tók allt of mikið af lyfjum," segir Grace Rawaramba í samtali við blaðið Sunday Times.
Talið er að Jackson hafi tekið allt að átta mismunandi lyfjategundir daglega, þar á meðal þrjú ávanabindandi verkjalyf.
Rawaramba, sem er frá Rúanda, starfaði hjá Jackson í áratug, fyrst sem ritari og síðan sem barnfóstra. Henni var sagt skyndilega upp störfum í desember. Rawaramba segist hafa miklar áhyggjur af börnum Jacksons og fór í gær til Los Angeles í von um að hitta þau.
Í viðtalinu segist hún hafa eitt sinn beðið Kathrine, móður Jacksons, og Janet systur hans um að reyna að ræða við Jackson og fá hann til að fara í meðferð vegna lyfjafíknarinnar. Hún segir, að Jackson hafi reiðst afskiptaseminni.