Conrad Murray, líflæknir Michaels Jacksons, segist hvorki hafa sprautað Jackson með verkjalyfjunum Demerol né Oxycontin og það myndi koma sér mjög á óvart ef leifar af þessum lyfjum fyndust í blóði hans.
Murray bjó í húsi Jacksons í Los Angeles og hann reyndi árangurslaust að vekja popptónlistarmanninn til lífsins á fimmtudag. Fullyrt hefur verið í bandarískum fjölmiðlum, að Murray hafi sprautað Jackson með verkjalyfinu Demerol, sem hefur svipaða verkun og morfín og það hafi valdið dauða Jacksons.
Þá hefur læknirinn einnig verið sakaður um að hafa klúðrað lífgunartilraununum og hann var einnig á fimmtudagskvöld sagður vera á flótta undan lögreglunni.
Edward Chernoff, lögmaður Murrays, sendi í nótt frá sér yfirlýsingu þar sem þessu er mótmælt. Fjallað er um yfirlýsinguna í blaðinu Berlingske Tidende en þar segir að Murray hafi aðeins gefið Jackson lyf vegna tiltekinna verkja. Ef Jackson var illt í bakinu hafi hann fengið viðeigandi lyf. Ekki er hins vegar upplýst hvaða lyf hann fékk.
Þá kemur fram, að Murray átti á fimmtudag leið fram hjá svefnherbergi Jacksons og sá tónlistarmanninn meðvitundarlausan í rúminu. Læknirinn hóf þegar lífgunartilraunir en þá var Jackson með veikan púls.
Þá kemur fram að Murray lagði Jackson ekki á hart undirlag meðan á lífgunartilraununum stóð vegna þess að Jackson var aðeins skinn og bein. Það hefði því getað leitt til beinbrots hefði hann verið lagður á hart gólf og síðan gerðar lífgunartilraunir. „Minnist þess að Michael Jackson var ekki hraustur einstaklingur. Hann reyndi að koma sér hjá því að borða og drekka," segir lögmaðurinn.
Hann segir einnig, að Murray hafi ekki farið frá Los Angelers eftir lát Jacksons og lögregla hafi getað rætt við hann hvenær sem var.
Joe Jackson, faðir Michaels, sagði við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN, að honum hefði ekki verið vel við þá, sem umgengust son sinn síðustu mánuðina. Þá hafði ABC sjónvarpsstöðin eftir heimildarmanni úr röðum lögreglu, að engin vafi léki á að Jackson hefði fengið daglega skammta af bæði Demerol og Oxycontin.