Söngvarinn Michael Jackson var svo illa haldinn af langvarandi svefntruflunum undanfarna mánuði að hann bað ítrekað um mjög sterk svefnlyf þrátt fyrir aðvaranir um að þau gætu stefnt heilsu hans í hættu. Þetta segir næringarhjúkrunarfræðingur sem vann með Jackson að undirbúningi endurkomu hans í viðtali við fréttamann AP-fréttastofunnar.
Hjúkrunarfræðingurinn Cherilyn Lee segist ítrekað hafa hafnað beiðnum hans um lyfið Diprivan. Þá segist hún hafa fengið símtal frá starfsmanni Jacksons fjórum dögum fyrir dauða hans þar sem hún hafi verið beðin um að útvega honum lyfið. Hún hafi neitað beiðninni en óttist nú að hann hafi fengið lyfið annars staðar frá.
„Hann hringdi mjög æstur og sagði: Michael þarf á þér að halda þegar í stað. Ég sagði: Hvað er að? Ég heyrði Michael segja fyrir aftan hann: Önnur hlið mín er heit, hún er svo heit og hin hliðin er köld, hún er svo köld," segir Lee. „Ég sagði: Segðu honum að hann þurfi að fara á sjúkrahús. Ég veit ekki hvað er að gerast en hann þarf að fara á sjúkrahús strax. Á þeirri stundu vissi ég að einhver hefði gefið honum eitthvað sem hafði áhrif á taugakerfið. Hann var í vanda á sunnudag og kallaði á hjálp."
Þá segir Lee Jackson ekki hafa verið haldinn lyfjafíkn. „Hann var ekki að reyna að komast í vímu, finna til vellíðunar eða sljóleika af lyfjunum. Þetta var einstaklingur sem tók ekki fíkniefni. Þetta var einstaklingur í leit að hjálp, í örvæntingu til að geta sofið, til að fá hvíld."
Jackson hafði æft stíft fyrir endurkomu sína í sviðsljósið, er hann lést og m.a. gengist undir læknisskoðun til að fá tryggingar í tengslum við hana. Það stranga heilsufarspróf hafði hann staðist.
Diprivan er svefnlyf sem yfirleit er ekki notað nema til svæfinga vegna aðgerða á sjúkrahúsum.