Teiknimyndaþættirnir um Simpson-fjölskylduna verða ekki lengur sýndir á besta tíma í ekvadorsku sjónvarpi því eftirlitsstofnun með sjónvarpsefni þar í landi er að athuga hvaða áhrif þættirnir kunni mögulega að hafa á börn og unglinga.
Sjónvarpsstöðin Teleamazonas segist ekki geta sýnt þættina lengur milli kl. 18 og 21, skv. fyrirmælum frá stjórnvöldum, meðan á rannsókn stendur. Eftirlitið hafi áhyggjur af ýmsu í þáttunum, m.a. miklu ofbeldi, kynþátta- og kynjafordómum.
Stöðin segist þó ekki hætt að sýna þættina því þeir verði sýndir áfram kl. 5.30 á morgnana. Sama stofnun gerði kröfu um að sýningartíma á japönsku anime-þáttaröðinni Dragon Ball Z yrði breytt. Rannsóknin á Simpson-þáttunum á að taka þrjá mánuði.