Forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair veltir því nú fyrir sér að bjóða fólki ókeypis flugfar á stuttum leiðum, ef það gerir sér að góðu að standa allan tímann. Michael O'Leary segir í viðtali við Sky fréttastöðina að hugmyndin sé að sleppa nokkrum öftustu sætaröðunum og koma fólki þar fyrir.
Hugmyndin gengur út á það að fólk geti tyllt sér á einhvers konar barstól, eða staðið ef það vill, á ferðum sem taka ekki meira en eina og hálfa klukkustund.
„Við gætum fjarlægt fimm eða sex öftustu sætaraðirnar og sagt við farþegana: Viljið þið standa? Ef þið kjósið það, getið þið fengið frítt far."
Fyrirtækið hefur þegar beðið Boeing flugvélaverksmiðjurnar að athuga möguleika á að því að breyta vélum þannig að hægt verði að bjóða upp á „lóðrétt sæti“ eins og það er orðað á Sky. Talsmaður Ryanair lagði áherslu á að engin slík breyting yrði vitaskuld gerð nema með samþykkti flugmálayfirvalda.
O'Leary, sem frægur er fyrir ýmislegt til þess að lækka farmiðaverð, neitar því að nú sé hann um það bil að ganga of langt. „Hvað er öðruvísi við þetta en það sem gerist ítrekað í lestum, þar sem þúsundir manna fá ekki sæti heldur standa í ganginum? Þetta er líka algengt í neðanjarðarlestum,“ segir forstjórinn.
O'Leary viðurkennir að hugmyndin sé ekki hans, heldur sé hún fengin að láni frá kínverska flugfélaginu Spring. Þar á bæ telja menn sig geta troðið 50% fleira fólki um borð með þessum hætti og lækkað kostnað um 20%.