Þann 1. apríl síðastliðinn birtist auglýsing frá Karli Berndsen um svokallað Beauty Camp Weekend, þar sem átti að fara ofan í saumana á öllu því sem viðkæmi líkamlegri umhirðu, tísku, förðun o.s.frv. En bíddu við... svo var þetta ekkert Karl Berndsen, umsjónarmaður hinna snilldarlegu þátta Nýtt útlit. Nei, þetta var mynd af Snorra Ásmundssyni listamanni, sem reynist alveg sláandi líkur dagskrárgerðarmanninum góðkunna. Auglýsingin var gabb en Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að þónokkrir hafi bitið hressilega á agnið og í snatri hafið undirbúning fyrir Fegurðarbúðirnar. Harmatárin geta þeir nú þerrað, því að Fegurðarbúðirnar verða standsettar næstu helgi í Nýlistasafninu og er það sjálfur Snorri Ásmundsson sem stýrir.
Yfirskriftin er „Uppbyggingin er hafin!“ og er yfirlýst markmið helgarinnar að byggja upp nýja og betri sjálfsmynd fyrir íslensku þjóðina. Búðirnar verða opnaðar með fyrirlestri á föstudeginum kl. 17 þar sem „blásið verður á smekkleysuna sem ríkt hefur í landinu“. Snorri hefur fengið til liðs við sig tvo af efnilegustu stílistum landsins, þær Dagnýju Berglindi og Önnu Sóleyju en saman mynda þau „færasta tríó samtímans í framkomu og almennri snyrtingu“.
„Auglýsingin góða, þann 1. apríl, kallaði á eitthvað meira,“ segir Snorri, sem má varla vera að því að ræða við blaðamann þar sem nef hans er á kafi í snyrtiskræðum af öllum stærðum og gerðum.