Gunnlaugur Júlíusson hlaupakappi kom til Blönduóss um klukkan 14 í dag og tók stefnuna fram Langadalinn. Gunnlaugur hyggst ná að Vatnsskarðsrótum í dag.
Hann lagði upp frá Víðigerði í morgun sem er í 40 kílómetra fjarlægð frá Blönduósi þannig að veglendin sem Gunnlaugur hleypur í dag er um 75 kílómetrar.
Jón Sigurðsson, fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi segir að vel hafi legið á Gunnlaugi við komuna til Blönduóss.
„Gunnlaugur sagðist heldur vera á undan áætlun. Hann taldi það heldur til bóta því hann gæti þess vegna leyft sér að spjalla aðeins við bændur sem nú eru í óða önn í heyskap í blíðunni.“
Hlaupið fer fram undir merkjum fjáröflunarátaks fyrir Grensásdeildina og Ungmennafélags Íslands. Hlaupið er jafnframt minningarhlaup um Jón H. Sigurðsson hlaupara frá Úthlíð.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta aðbúnað á Grensásdeildinni geta lagt inn á reikning 0130-26-9981, kt: 660269-5929.