Þúsundir manna komu saman á minningarathöfn um Michael Jackson í fæðingarbæ hans, Gary í Indiana í gær, föstudag. Börn klæddu sig upp eins og uppvakningarnir í myndbandinu Thriller og blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson tók þátt í bænastund í minningu poppgoðsins.
Margir lögðu á sig mikið erfiði til að geta verið viðstaddir athöfnina og ók einn aðdáenda Jacksons 900 km til að geta heiðrað minningu hans.
Anita Hill, fyrsti tónlistarkennari Jacksons, rifjaði upp þegar hún leiðbeindi honum um flutning lagsins „Climb Every Mountain“.
Lýsti hún honum sem yndislegum og mjög tápmiklum nemanda.
Fólkið kom saman á The Steel Yard hafnaboltavellinum og var hápunktur kvöldsins þegar myndskeið af Jackson var sýnt á stórum skjá þar sem hann sagði borgina ávallt mundu verða í hjarta sínu.
Rudy Clay, borgarstóri Gary, þakkaði listamanninum framlag sitt, hann hefði með glæstum ferli sínum komið borginni á kortið.
Skólastjórinn í barnaskólanum sem Jackson gekk í rifjaði upp hversu áfjáður hann var í að koma fram og syngja, meðal annars í félagi með Jackson 5. Tók hann sérstaklega fram að aðgangseyrir hefði aðeins verið 10 sent, eða 14 krónur á núverandi gengi.
Jackson bjó í Gary fyrstu 11 ár ævi sinnar en fjölskyldan fluttist svo til vesturstrandarinnar þar sem fræðgarsól Jackson 5 átti eftir að rísa svo um munar.