Margrét Hannesdóttir er 105 ára í dag . Bróðir hennar, Filippus Hannesson, er 99 ára og verður 100 ára í byrjun desember. Samanlagður aldur þeirra er tæplega 205 ár, sem mun vera Íslandsmet. Margrét er búsett í Reykjavík en Filippus á æskustöðvunum að Núpsstað í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta kemur fram á vefnum langlifi.net. Þau eru börn Hannesar Jónssonar pósts á Núpsstað í Vestur-Skaftafellssýslu og Þórönnu Þórarinsdóttur. Börnin voru tíu og er helmingur þeirra enn á lífi. Meðalaldur systkinanna tíu er 89 ár, sem er mjög hár aldur svo margra systkina, að því er segir á vefnum langlifi.is.
Alls hafa 26 Íslendingar orðið 105 ára, 22 konur og 4 karlar. Fimm úr þessum hópi bjuggu í Kanada, þar á meðal Guðrún Björnsdóttir sem hefur orðið elst Íslendinga, en hún lifði í 109 ár og 310 daga. Nú eru á lífi rúmlega fjörutíu Íslendingar sem náð hafa hundrað ára aldri.