„Ég held að ýmislegt bendi til þess að hagur neytenda vænkist í kjölfar þessarar ákvörðunar, enda er reynsla sambærilegra þjóða sem hafa gengið í ESB sú, að hagur og kjör neytenda hafa batnað," segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um samþykkt Alþingis á aðildarumsókn að ESB.
Gísli segir rannsóknir benda til að kjör neytenda myndu batna við inngöngu og telur að spurningin sé í raun ekki hvort, heldur hve hratt og hve mikið. „Svo getur maður vonað, eins og talsmenn aðildar hafa haldið fram, að jafnvel bara ákvörðun um umsókn geti haft stöðugleikaáhrif og góð áhrif á gengi krónunnar."