„Ég þverneitaði þegar mér var fyrst boðið hlutverkið. Ég var fullur fordóma gagnvart þessari mynd og hélt að hún yrði alger klisja,“ byrjar leikarinn Michael Nyqvist samtal sem fram fer í hádegishléi hans á tökustað í Danmörku. Nyqvist snæðir hádegismatinn sinn í rólegheitum á meðan blaðamaður rekur úr honum garnirnar um nýjustu mynd hans, Karlar sem hata konur, sem frumsýnd verður hér á landi á miðvikudag. Þar fer Nyqvist með hlutverk nafna síns, Blomkvists, rannsóknarblaðamannsins slynga.
„Ég var eini maðurinn í Svíþjóð sem ekki hafði lesið bækur Stiegs Larsons, ég er svo snobbaður og hélt að þetta væri ekkert fyrir mig,“ heldur leikarinn áfram um aðkomu sína að myndinni. „Þegar Niels Arden Oplev, leikstjóri fyrstu myndarinnar, kallaði mig svo á sinn fund small eitthvað saman. Við tengdumst alveg ótrúlega vel og ég treysti honum fullkomlega til að gera góða mynd. Þegar ég svo loksins las bókina og svo handritið varð ég sannfærður um að við værum með stórkoslegt efni í höndunum.“
Bjóst ekki við góðum viðtökum
Bækur Stiegs Larssons um þau blaðamanninn Blomkvist og tölvuþrjótinn Lisbet Salander hafa selst í bílförmum á Norðurlöndum og víðar. Skyldi Nyqvist ekkert hafa verið efins um að taka að sér hlutverk manns sem svo margir hafa lesið um og hafa skoðanir á hvernig eigi að vera?
„Ég hugsaði ekkert mikið um það í byrjun. Ég reyndi bara að gera mitt besta í að kafa ofan í persónu Blomkvists og gera honum sem best skil. Það var ekki fyrr en að tökum myndanna lauk sem það rann upp fyrir mér hvað við hefðum verið að gera. Ég uppgötvaði að 13 milljónir manna hafa keypt sér bókina, og svo lánað hana hugsanlega einum eða tveimur svo að ég var að leika karakter sem um 30 milljónir manna höfðu lesið allt um og höfðu væntanlega skoðun á hvernig ætti að vera. En þá var of seint fyrir mig að gera nokkuð í því,“ segir leikarinn.