Skoska söngkonan Susan Boyle, sem varð heimsfræg á einni viku eftir að hún kom fram í sjónvarpshæfileikakeppninni „Britains Got Talent” hefur nú í fyrsta sinn tjáð sig opinberlega um það er hún var lögð inn á geðsjúkrahús í fimm daga eftir að hún kiknaði undan álaginu sem fylgdi sviðljósinu. Þetta kemur fram á fréttavef Jylland-Posten.
„Þetta var nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti. Ég hafði einfaldlega þörf fyrir hvíld. Ég þurfti að komast í burtu,” sagði hún í viðtali sem sýnt var á bandarísku sjónvarpsstöðinni MSNBC. „Tilfinningin var eins og ég hefði fengið kúlu, sem braut mig niður, beint í höfuðið. Þannig var tilfinningin.”