Bannað yngri en 45 ára nema í fylgd með fullorðnum

Frá hippaballinu á Ketilási í fyrra. Leikurinn verður endurtekinn annað …
Frá hippaballinu á Ketilási í fyrra. Leikurinn verður endurtekinn annað kvöld.

Hippaball, sem haldið verður að Ketilási í Fljótum annað kvöld, er aðeins fyrir 45 og eldri - nema þeir sem yngri eru komi í fylgd með fullorðnum! Annað árið í röð blása systurnar Margrét og Vilborg Traustadætur til slíks dansleiks og safna um leið peningum til góðra málefna. Ballið þótti gríðarlega vel heppnað í fyrra. 

„Hljómsveitin Stormar frá Siglufirði, sem lék á ballinu í fyrra við frábærar undirtektir, hefur æft á fullu í vetur og spilar auðvitað aftur núna. Það er sú hljómsveit sem spilaði hvað mest á Ketilásnum á sínum tíma Þetta voru aðalböllin fyrir fólk á Siglufirði, Ólafsfirði, Fljótum og allt inn á Sauðárkrók,“ segir einn aðstandenda samkomunnar, Margrét Traustadóttir.

Dansleikurinn á morgun hefst kl. 22 og honum lýkur klukkan 2 eftir miðnætti. „Það þýðir ekkert að mæta jafn seint og fólk gerir á skemmtistöðum í dag. Í fyrra kom lögreglan klukkan 2 og sá til þess að ballinu lyki - eins og í gamla daga!“

Tónlist kvöldsins er eingöngu frá hippatímabilinu, um það bil 1967-1972. „Þetta heppnaðist alveg frábærlega í fyrra. Menn skemmtu sér konunglega; á sínum tíma var slegist dálítið, t.d. Ólafsfirðingar við Siglfirðinga um kvenfólk - en ekki í fyrra. Nú eru allir orðnir svo þroskaðir og fínir!“ segir Margrét.

Markaðsstemning verður að Ketilási á morgun og að minnsta kosti um 30 seljendur á staðnum. Fé sem fæst með málverkauppboði á markaðnum og dansleiknum, rennur til Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur á Sauðárkróki. Hún lamaðist frá brjósti fyrir tveimur árum þegar hún datt af hestbaki og fer síðsumars til Delhí á Indlandi í stofnfrumumeðferð til þess að láta laga skaddaðar frumur í líkamanum. 

Tjaldstæði er við Ketilás og Margrét segist vita um marga sem ætla að gista þar. „Í fyrra komu 230 á ballið en við gætum troðið 350 manns í húsið. Þá yrðum við reyndar eins og síld í tunnu en það er allt í lagi. Menn syngja og dansa allan tímann, strax frá fyrsta lagi, og það er allt í lagi þótt þröngt verði í húsinu.“

Systurnar Margrét og Vilborg héldu ballið í fyrra upp á von og óvon. „Við vildum taka áhættuna og vissum að við sætum uppi með skellinn ef þetta gengi ekki upp. En þá varð hagnaðurinn 100 þúsund krónur sem við gáfum til uppbyggingar á félagsheimilinu og ef afgangur verður núna rennur hann líka til þess.“

http://ketilas08.blog.is/blog/ketilas08/

ATH: Leiðrétting kl. 11.57. Ágóðinn af málverkauppboðinu rennur óskertur til Þuríðar Hörpu, ekki það sem kemur í kassann af sölu á markaðnum líka eins og sagt var í fréttinni í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Torill Thorup