Þátttakendur á Roverway-skátamótinu við Úlfljótsvatni héldu alþjóðlegan karnivaldag í dag. Dagskráin hófst klukkan tvö á því að skátarnir, sem koma frá 36 Evrópulöndum, opnuðu kynningartjöld sín fyrir hinum 3.200 þátttakendunum.
Fjölbreytnin er gríðarleg og geta þátttakendur lært gríska, skoska, tékkneska, rúmenska, slóvenska, búlgarska, katalónska, írska og spænska dansa eða horft á skáta í þjóðbúningum sínum dansa þá á sýningarpöllum eða grasflötum svæðisins.
Skátarnir geta þá lært að búa til grískt „kompoloi“, kynnst hollenskum drottningardegi, kynnt sér búlgarskt handverk, leikið maltneskt „passju“ og slóvenskt „lietaéky“, tekið þátt í sænskri „Mini-Wasa“ skíðagöngu án skíða, leikið á slóvenskt „fujara“, smakkað „Kniddelen“ frá Lúxemborg, spænskum eggjakökum og svo mætti lengi telja.
Á mótinu eru fimm kaffihús og verða þau öll opin þátttakendum fram eftir kvöldi, hvert með sína sérstöðu í veitingum, tónlist og stemningu.
Í kvöld verður einnig boðið upp á rómantískar kvöldgöngur um nágrenni Úlfljótsvatns, fyrir þá sem vilja meiri ró og næði í kvöldkyrrðinni.