Lögreglumenn í Utah í Bandaríkjunum veittu sjö ára pilti eftirför þegar hann stal bíl föður síns til að reyna að komast hjá því að þurfa að fara í kirkju.
Lögreglan sagði að hún hefði fengið tilkynningu um glannalegan akstur barns á sunnudaginn var. Sjónarvottar sögðu að pilturinn hefði meðal annars virt stöðvunarskyldu að vettugi.
Tveir lögreglumenn reyndu án árangurs að stöðva piltinn á vegi um 70 km norðan við Salt Lake City. Pilturinn ók á um 65 km hraða á klst. þar til hann nam staðar á heimreið og hljóp inn í hús.
Þegar faðir piltsins spurði hann hvers vegna hann hefði stolið bílnum var svarið að hann vildi ekki fara í kirkju með fjölskyldu sinni.