Breski leikstjórinn Ridley Scott hyggst leikstýra nýrri kvikmynd um geimskrímslin sem sáust fyrst árið 1979 í kvikmyndinni Alien. Kvikmyndin á að gerast á undan þeirri fyrstu, sem var í leikstjórn Scotts. Kvikmyndatímaritið Variety greinir frá þessu.
Fyrsta myndin þykir vera svokölluð „költ klassík“ og hafa þrjár framhaldsmyndir litið dagsins ljós undanfarna þrjá áratugi. Hafa frægir og virtir kappar á borð við leikstjórana James Cameron og David Fincher verið sporgöngumenn Scotts, sem hefur hins vegar ekki verið viðriðinn framhaldsmyndirnar.
Scott, sem er 71 árs, vinnur nú að gerð nýrrar kvikmyndar um Hróa Hött.
Hann hefur ekki gert vísindatrylli frá árinu 1982, en þá leikstýrði hann Harrison Ford í Blade Runner.