Söngkonan Madonna hyggst fara með börn sín fjögur í skoðunarferð um útrýmingarbúðirnar Auschwitz síðar í þessum mánuði. Telur söngkonan að það verði mikil upplifun fyrir börnin sem eru þriggja til tólf ára gömul enda muni þau sjá hvað þau sjálf eru heppin. Madonna heldur tónleika í Póllandi síðar í þessum mánuði.
Söngkonan er sem kunnugt er einn helsti fylgismaður Kabbalah dulspekinnar - eða alla vega frægasti. hefðbundinni gyðingatrú mega einungis karlmenn sem komnir eru yfir fertugt leggja stund á Kabbalah.
Madonna hóf að iðka trúna eftir að hún kynntist blöndu af Kabbalah hugmyndafræði og jákvæðri hugsanaþjálfun í Los Angeles árið 1997.
Hún tók upp hebreska nafnið Esther árið 2004 en hefur ekki tekið gyðingatrú.
Auschwitz voru stærstu útrýmingarbúðir Nasista en þær voru reistar eftir innrásina í Pólland árið 1941. Talið er að yfir þrjár milljónir manna, að mestum hluta gyðingar, hafi verið drepnar í búðunum.