Ísbjörninn Knútur, sem um tíma var uppáhald heimsbyggðarinnar, mun brátt eignast vinkonu.
Tilvonandi kærasta Knúts heitir Gianna, tveggja ára birna af ítölskum ættum. Hún verður flutt frá Hellabrun dýragarðinum í Munchen í dýragarðinn í Berlín þar sem Knútur dvelur. Fyrsta stefnumót er áformað um miðjan september.
Heimsbyggðin tók ísbjarnarhúninn Knút nánast í fóstur þégar móðir hans yfirgaf hann. Knútur er nú tveggja ára en starfsmenn dýragarðsins segja að farið verði hægt í sakirnar. Knútur verði ekki kynþroska fyrr en eftir tvö ár og hjúunum verði gefinn nægur tími til að kynnast.
Tilvonandi kærasta Knúts, hin ítalska Gianna, á sína fortíð. Hún var áður í samneyti með Yoghi, 10 ára birni en sambandið gekk ekki upp. Því þurfti að skilja hjúin að.
Gianna var því flutt í búr með 32 ára birnu, Lisu að nafni en svo skemmtilega vill til að Lisa er amma Knúts litla.