Greint er frá því í bandarískum slúðurmiðlum að ofurstjarnan og fyrrum Kryddpían Victoria Beckham komi til með að taka við af Paulu Abdul sem dómari í vinsælasta sjónvarpsþætti Bandaríkjanna, American Idol. Talið er að aðkoma Victoriu að þættinum verði til að auka vinsældir hans enn frekar.
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Victoria er orðuð við hæfileikaþætti á borð við American Idol. Fyrr á þessu ári var því haldið fram að hún ætti í viðræðum við framleiðendur breska þáttarins X Factor um dómarasæti. Ekkert varð hins vegar af því.
Líklegra en ekki þykir hins vegar að dómarasætið í American Idol verði hennar. Framleiðandi þáttarins er nefnilega Simon Fuller, en hann var umboðsmaður Kryddpíanna (e. Spice girls) og er ráðgjafi eiginmanns hennar, knattspyrnukappans David Beckham. Heimildir herma að þegar hafi verið samið um að Victoria dæmi í tveimur þáttum en samningaviðræður séu í gangi um ráða hana í fullt starf.
Söngkonan Paula Abdul hætti formlega sem dómari í þættinum í gær, og lét boðin berast í gegnum samskiptavefinn Twitter.