Bandaríski gítarleikarinn Les Paul er látinn, 94 ára að aldri. Hann var einn af frumherjunum í þróun rafmagnsgítars og upptökutækni og hefur verið um hann sagt, að hann hafi gert rokk og ról mögulegt.
Paul, sem hét réttu nafni Lester William Polfuss, lést í af völdum lungnabólgu í White Plains í New York. Hann var þegar í barnæsku mikill áhugamaður um rafmagnstæki og byrjaði einnig snemma að leika á gítar. Á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar lék hann undir hjá söngvurum á borð við Bing Crosby, Frank Sinatra og Andrews systrum og stofnaði einnig Les Paul Trio.
Crosby gaf Paul segulbandstæki og í kjölfarið fékk hann mikinn áhuga á hljóðupptökum. Honum er m.a. þökkuð framþróun í upptökutækni, svo sem margrása upptökur og ýmis segulbandsbrögð. Þá byggja nútíma rafmagnsgítarar, sem ekki eru með hljómbotn, á hugmyndum hans og gítarinn Gibson Les Paul, heitir eftir honum.
Hljóðfæraframleiðandinn Gibson hóf framleiðslu
Les Paul rafmagnsgítaranna árið 1952 og urðu þeir fljótt mjög
vinsælir. Meðal þeirra sem leikið hafa á Gibson Les Paul eru Jimmy Page
(Led Zeppelin), The Edge (U2), Eric Clapton, Dave Grohl (Foo Fighters),
David Gilmour (Pink Floyd), John Foggerty (Creedence Clearwater
Revival), James Hetfield (Metallica), Mark Bolan (T-Rex) og Ace
Frehley (Kiss).