Hundur með fullkomlega hjartalaga feld hefur eignast hvolp sem erft hefur útlitið. Hjartað er þó svart en verður ef til vill jafn fullkomið í lögun þegar hvolpinum vex fiskur um hrygg. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í samantekt Reuters um það sem stendur upp úr í furðufréttum vikunnar.
Einnig er fjallað um heimsmeistarakeppnina í gufubaðssetu í Heinola á Finnlandi en björgun fílsunga í Rayong á Taílandi kemur einnig við sögu.
Tekið er hús á skóla fyrir kvikmyndastjörnur framtíðarinnar í Peking en ung börn fá þar leiðbeiningu um hvaðeina sem við kemur kvikmyndaleik og framkomu. Nemendur eru beittir hörku til að framkalla réttar tilfinningar.