Hljóðfærum og tækjabúnaði að andvirði tveimur milljónum króna var nýlega stolið úr æfingahúsnæði Benny Crespo's Gang og Veðurguðanna. Innbrotsþjófar komust inn í húsnæðið með því að spenna upp glugga og létu greipar sópa.
Bassaleikari Benny Crespo's Gang, Magnús Øder, segir bróðurpartur þýfisins fundinn en svo virðist sem þjófarnir hafi falið það í gámi skammt frá. „Við erum þannig séð búin að endurheimta mest af þessu.“
Hljóðfærin og tækin eru þó mikið skemmd en þeim virðist hafa verið hent út um sama glugga og þjófarnir komu inn um. Hann er á annarri hæð og hafði steinull verið komið fyrir undir glugganum til að taka fallið af góssinu. Það dugði ekki til fóru tækin og hljóðfærin því illa þó eitthvað af þeim sé enn nothæft.
Meðal þess sem eyðilagðist er forláta hljómborð frá 9. áratugnum sem erfitt eða ómögulegt er að fá nú til dags. „Það er allt í döðlum,“ segir Magnús.
Stuldurinn uppgötvaðist í gærmorgun þegar lögregla hafði samband við hljómsveitarmeðlim vegna þess að gítarpedall merktur honum fannst í grennd við æfingarhúsnæðið.
Magnús hefur auglýst eftir tækjunum á Facebook og víðar og fengið nokkur viðbrögð. Hann biður fólk að hafa samband við sig í síma 662-1112 geti það veitt upplýsingar um þýfið.