Joe Jackson, faðir poppstjörnunnar Michael Jackson, hefur borið til baka fréttir af því að Michael hafi verið jarðaður. Staðhæft var fyrir nokkru að hann hefði verið jarðsettur í kyrrþey en ekki var greint frá því hvar gröf hans væri. Jackson-fjölskyldan er nú sögð vera að leggja grunnin að því að koma upp fjölskyldugrafreit í Forest Lawn kirkjugarðinum í Los Angeles.
„Þau eru að bíða með að jarðsetja Michael þar til gengið hefur verið frá öllum smáatriðum varðandi kaup á einkagrafreit, segir ónefndur heimildarmaður. Þá segir hann reitinn sem um ræðir vera afgirtan og hafa pláss fyrir átta grafir. Verð hans mun vera um 253.000 Bandaríkjadollarar.
Michael, lét eftir sig þrjú börn undir tólf ára aldri, auk aldraðra foreldra og átta systkina. Lögreglurannsókn stendur yfir á láti Jacksons þann 25. júní og hefur verið ákveðið að niðurstöður krufningar verði ekki birtar fyrr en að henni lokinni.
Líkum hefur verið leitt að því að fjölskylda Jacksons hafi ekki viljað jarða hann fyrr en yfirvöld hafi afhent henni alla líkamshluta hans. Einnig hefur verið staðhæft að ósætti innan fjölskyldu hans um hvílustaðinn sé ástæða þess að hann hafi enn ekki verið jarðsettur.