Útvarpsmaðurinn Gunnlaugur Helgason, betur þekktur sem Gulli Helga, mun stýra morgunþætti alla virka daga á útvarpsrásinni Kananum sem hefur útsendingar þann 1. september. Þetta segir í tilkynningu frá Einari Bárðarsyni, stofnanda Kanans.
„Ég ólst upp við að hlusta á Gulla Helga, eldri kynslóðir ólust upp
við að hlusta á Kanann. Þetta er frábær blanda og mikill heiður og
traust sem Gulli sýnir okkur með því að koma til okkar. Ég er himinlifandi með þetta og vona að við rísum undir væntinum hans sem
meðeigendur og samsstarfsmenn,“ segir Einar.
Með Gunnlaugi segir Einar að fylgi þrjátíu ára reynsla sem sé Kananum mikilvæg. Líkir hann komu hans að fá liðsauka heillar hæðar af samstarfsmönnum.
Gunnlaugur býr að mikilli reynslu af útvarpi og hefur stjórnað þáttum á Rás 2, FM957, Útvarpi Matthildi og Bylgjunni auk þess sem hann var einn stofnenda útvarpsrásarinnar Stjörnunnar. Þá hefur hann gert það gott í sjónvarpi.
Kaninn verður sendur út á tíðninni 91.9 í Reykjavík og 93.9 á Akureyri.