Breska kvikmyndaeftirlitið hefur hafnað því að japönsku hryllingsmyndinni Grotesque verði dreift á DVD diskum í landinu. Segir stofnunin að myndin sýni nánast stöðugt ofbeldi en söguþráður sé lítill sem enginn.
Þessi ákvörðun þýðir, að myndin er óflokkuð í Bretlandi og því liggur bann við að dreifa henni og selja. Viðurlög eru háar sektir eða jafnvel fangelsi.
Kvikmyndaeftirlitið segir, að Grotesque fjalli um kynferðislegar árásir, auðmýkingu og öfgafullar pyntingar sem karl og kona sæta. Árásarmaðurinn veiti parinu alvarlega áverka og misþyrmingarnar verði stöðugt ofsakenndari og á endanum láti fórnarlömbin lífið.
Breska kvikmyndaeftirlitið hafnar afar sjaldan kvikmyndum en veitir þess í stað ráðleggingar um hvernig klippa megi myndina svo þær verði hæfar til sýningar fyrir tiltekna aldurshópa.
David Cooke, forstjóri kvikmyndaeftirlitsins, segir að nýlegar hryllingsmyndir, sem fjalla um pyntingar á fólki, svo sem Saw og Hostel myndaflokkarnir, hafi söguþráð og persónusköpun. Grotesque sýni hins vegar lítið annað en linnulaust og sívaxandi ofbeldi.
Þeir sem ætluðu að dreifa kvikmyndinni geta áfrýjað niðurstöðu kvikmyndaeftirlitsins til sérstakrar nefndar.