Stórsöngkonan Celine Dion er að vonum spennt vegna ófrískunnar sem tilkynnt var í vikunni en hún og eiginmaður hennar, René Angélil, eiga eitt barn fyrir.
Um tæknifrjóvgun er að ræða, og um er að ræða egg sem hefur verið frosið í átta ár. Í desember 2000 greindi BBC frá því að Dion hefði látið frysta tvö egg og ætlaði hún að nýta sér annað þeirra síðar. Hið fyrra gat af sér soninn René-Charles sem fæddist árið 2001. Fóstrið sem nú er að þroskast er því tæknilega séð tvíburi René-Charles – tvíburi sem mun fæðast níu árum síðar! Um tvíeggja tvíbura er þó að ræða, þannig að það eru engin „klón“-furðulegheit í uppsiglingu.