Hann er úr bænum Bagnone í Toskana héraði, hann er á fimmtugsaldri og er ókvæntur, að minnsta kosti núna. Þetta er það sem fréttavefur Times hefur náð að grafa upp um hinn heppna sem vann 147,8 milljónir evra, 27 milljarða króna, í ítalska lottóinu um helgina. Þykir hins vegar líklegt að hann geti ekki leynst mikið lengur þar sem íbúar bæjarins eru einungis tvö þúsund talsins og fátt annað sem kemst að í huga íbúanna nú annað en það hver hinn heppni er.
Nafn Ugo Verni, sem er smiður í bænum, hefur verið nefnt til sögunnar þar sem hann hafi verið óeðlilega glaður í bragði þegar hann horfði á fótboltann í gær. Aðrir hafa nefnt mann sem kom til bæjarins á dráttarvél í gærmorgun. Hann hafi veifað til almennings líkt og hann væri af aðalsættum. En þrátt fyrir að sá hinn heppni hafi ekki enn gefið sig fram opinberlega þá er mikil kátína í bænum Bagnone. Vonast íbúarnir til þess að vinningshafinn láti eitthvað af peningunum renna til bæjarbúa og segir bæjarstjórinn, Gianfranco Lazzeroni, að þetta sé ótrúleg gæfa að vinningsmiðinn hafi verið keyptur í bænum. Bagnone er rólegur bær og þegar bæjarstjórinn komst síðast í fréttirnar var það vegna þess að hann hét því að pör sem myndu eignast barn fengju 230 evrur í verðlaun frá bæjarsjóði þar sem bærinn væri að deyja út.
Á föstudagskvöldið seldi Vanni Simonetti, eigandi Bar Biffi í miðbæ Bagnone, þrjá lottómiða til þriggja íbúa í bænum, tveggja karla og konu. Öll keyptu þau miða fyrir tvær evrur og vinningshafinn er einn þeirra, segir Simonetti í samtali við Times.