„Það eru svo undarlegir tímar í gangi, og allir eru farnir að tala svo illa um Ísland. Þannig að okkur langaði til þess að koma með smámótsvar við því,“ segir Helgi Jean Claessen sem ásamt félaga sínum, Hjálmari Erni Jóhannessyni, hefur vakið töluverða athygli fyrir tónlistarmyndband sem þeir settu á Youtube.
Í myndbandinu rappa þeir um ástandið á Íslandi, með mjög gamansömum hætti þó. Lagið er skrumskæling á laginu „Ice Ice Baby“ með Vanilla Ice og heitir í hinum nýja búningi „Ice Ice Iceland“.
„Okkur fannst þessi umræða ekki alveg sanngjörn, fólk var að spyrja hvort við ættum fyrir mat þarna á Íslandi og svona. En um leið erum við ekkert saklaus af því sem komið hefur fyrir. Þannig að það eru engin ein skilaboð í textanum,“ segir Helgi og bætir því við að um ákveðna ádeilu sé að ræða.
„Einhverjir gætu haldið að við værum mjög hrokafullir, en við erum líka að draga okkur Íslendinga svolítið niður. Við segjum til dæmis að það sé hægt að vinna okkur í hvaða íþrótt sem er, svo lengi sem það sé ekki handbolti karla,“ segir hann og hlær.
Myndbandið er fagmannlega gert, og sömuleiðis rappið, en þrátt fyrir það segir Helgi að þeir félagar hafi litla sem enga reynslu af rappi og myndbandagerð. Þeir vöktu hins vegar nokkra athygli fyrir jólin árið 2007 þegar þeir sendu frá sér bókina Konur eru aldrei hamingjusamar því þær eru með svo litlan heila – og karlar rosa pirrandi.