Dómari í Nebraska hefur vísað frá kæru sem einn af liðsmönnum þings sambandsríkisins, Ernie Chambers, lagði fram í fyrra gegn Guði sem hann sakaði um að valda dauða og eyðileggingu. Dómarinn, Marlon Polk, sagði Guð ekki vera með neitt heimilisfang.
Chambers sagði í kæru sinni að Guð hefði ógnað sér og öðrum Nebraskabúum og valdið ,,dauða, eyðileggingu og skelfingu meðal margra milljóna jarðarbúa". En Polk benti á að kærandi yrði að geta sagt hvar hinn ákærði væri ef rétta ætti í málinu.
,,Þar sem Guð er alls staðar þá veit hann um þessa málsókn," sagði Chambers sem setið hefur á þingi í Nebraska í 38 ár.