Nýtt lag trommuleikarans Gunnlaugs Briem, „Jewels Up High“, má nú sækja á forsíðu vefsvæðis samtaka Nelsons Mandela, 46664.com. Gunnlaugur ánafnaði samtökunum lagið en þau berjast gegn alnæmi í Afríku. Auk þess að semja lagið syngur Gunnlaugur það en það mun vera nýmæli hjá trommaranum.
„Ég hef verið í mjög góðu sambandi við þessi samtök og fannst þetta liggja í augum uppi í kjölfar tónleikanna árið 2005,“ segir Gunnlaugur sem kom fram ásamt hljómsveit sinni, Earth Affair, á tónleikum sem haldnir voru til heiðurs Mandela í Noregi. Mandela hitti listamennina á tónleikunum og í kjölfarið gerðist Gunnlaugur einn af mörgum „ambassadorum“ samtakanna, en á meðal annarra slíkra má nefna Bono, Beyoncé, Luis Figo og Will Smith. Ambassadorarnir leggja sín lóð á vogarskálarnar til að breiða út boðskapinn og vekja athygli á málstaðnum, en alnæmi hefur lagt milljónir manna að velli í Afríku.
„Ég vildi viðhalda framlögum frá mér til þessarar baráttu. Þetta var það besta sem ég gat gert, að nýta mína hæfileika til að kynna málstaðinn og samtökin. Viðbrögðin voru mjög góð hjá samtökunum þannig að þetta kom eiginlega af sjálfu sér.“
Texta lagsins samdi Jökull Jörgensen sem jafnframt leikstýrði myndbandinu sem sjá má á síðunni.
„Þetta fjallar svolítið um loforð, og einfaldasta tengingin frá mínum bæjardyrum séð er að lofa Nelson Mandela að leggja mitt af mörkum,“ segir Gunnlaugur.