Orðrómur er á kreiki um að Charlie Watts sé hættur sem trommuleikari bresku rokksveitarinnar Rolling Stones. Watts gekk til liðs við sveitina árið 1963 en hann er 68 ára að aldri.
Ástralski tónlistarfréttavefurinn Undercover hefur eftir heimildarmanni, sem sagður er í innsta hring Rolling Stones, að Watts sé hættur og ætli ekki að taka upp fleiri lög með hljómsveitinni.
Fram kemur á vefnum, að Watts hafi farið nauðugur viljugur í hljómleikaferðina A Bigger Bang árið 2005 og nú sé hann búinn að fá nóg. Hljómsveitin hafi nú hug á að fá trommarann Charlie Drayton til liðs við sig en hann hefur leikið með Keith Richards.
Mick Jagger, söngvari Rolling Stones, er sagður vera að undirbúa nýja plötu Rolling Stones á næsta ári.