Starfsár Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefst í kvöld, með tónleikum í Háskólabíói þar sem feðgarnir Vovka Stefán og Vladimir Ashkenazy heiðursstjórnandi hljómsveitarinnar verða báðir í sviðsljósinu með hljómsveitinni.
Vovka leikur einleik í umritun Franz Liszts á einu mesta verki Schuberts, Wanderer-fantasíunni, og Vladimir stjórnar. Eftir hlé verður flutt sinfónía eftir Tsjaíkovskíj, - Manfred sinfónían, - byggð á samnefndu ljóði eftir Lord Byron.
Í gær fór Vladimir Ashkenazy í heimsókn í Tónlistarhúsið sem nú rís við Austurhöfn. „Það er kraftaverk að sjá þetta gerast og veitir manni mikinn innblástur. Ég er agndofa og þakklátur fyrir að það eigi að klára þessa byggingu, þrátt fyrir þau hrikalegu vandamál sem þjóðin glímir við í dag,“ sagði Ashkenazy við það tækifæri og kvaðst vonast til að fá að stjórna hljómsveitinni á fyrstu tónleikum hennar í Tónlistarhúsinu.
Tónleikarnir í kvöld hefjast kl. 19.30, en á morgun kl. 13 opnar Sinfóníuhljómsveitin dyr sínar gestum og gangandi. Þar verður óvænt dagskrá, vetrarstarfið kynnt og Vladimir Ashkenazy lyftir tónsprotanum með hljómsveitinni.