Þrjár merktar vatnslitamyndir eftir Adolf Hitler voru seldar á uppboði í Nürnberg í Þýskalandi í dag, þar sem samnefnd stríðsréttarhöld fóru fram eftir seinni heimstyrjöldina en þar þurftu þeir, sem lögðu á ráðin um helförina, að svara til saka. Voru myndirnar seldar á 42 þúsund evrur, 7,6 milljónir króna.
Teikningarnar eru frá árunum 1910 og 1911 og nefnast Zerschossene Mühle, Weissenkirchen in der Wachau og Haus mit Brücke am Fluss. Í aprílmánuði seldi Weidler uppboðshúsið tvær vatnslitamyndir merktar Hitler til einkasafnara ár 32 þúsund evruren einhverjar myndir hans hafa farið á mun hærri fjárhæðir. Árið 2006 var seld 21 mynd eftir Hitler í Bretlandi á 126 þúsund pund og árið 2005 fór vatnslitasería eftir Hitler á yfir 100 þúsund evrur.Þegar Hitler var ungur lá metnaður hans í myndlistinni og sótti hann um skólavist í listaakademíunni í Vín en var synjað. Var honum bent á að læra arkitektúr þess í stað. Ekki fór Hitler að þeim ráðum og vann meðal annars fyrir sér um tíma með því að mála myndir eftir póstkortum og selja ferðamönnum.
Að sögn uppboðshaldarans, Herbert Weidler, voru kaupendurnir þrír og fór ein myndin á 24 þúsund evrur en það boð kom frá Austurríki.