„Myndin gerist í ótrúlega skemmtilegu umhverfi, í hjólhýsahverfi á Íslandi. Það er mjög áhugaverður heimur sem býður upp á margt enda er þetta heilt samfélag á einu litlu svæði, öll flóran af fólki í þrjátíu hjólhýsum,“ segir Gísli Örn Garðarsson leikari um kvikmyndina Kóngaveg 7 sem nú er í bígerð. Myndin er samstarfsverkefni leikhópsins Vesturports og leikstjórans og klipparans Valdísar Óskarsdóttur, en um er að ræða gamanmynd með dramatísku ívafi.
„Það er ótrúlega gaman og gefandi að vinna með Valdísi, enda draumaumhverfi allra leikara að fá að vera með í sköpun verksins frá upphafi og hafa áhrif á það sem gerist,“ segir Gísli, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem Vesturport vinnur með Valdísi því nokkrir leikarar úr leikhópnum fóru með hlutverk í fyrstu mynd hennar, Sveitabrúðkaupi.