Bubbi Morthens er á ferð um landið þessar vikurnar, einn með gítarinn. Hann hóf ferðalagið í Bæjarbíói í Hafnarfirði í vikunni og voru tónleikagestir ánægðir með heimilislega stemninguna.
Bubbi plokkaði gítarinn af list og flutti nokkra af sínum kunnustu söngvum, á borð við „Stál og hníf“ og „Svartan afgan“. Lagavalið kom þó sumum á óvart, enda var nokkuð um ábreiður kunnra laga sem Bubba tókst listavel að gera að sínum. „Over the Rainbow“ var hugljúft í meðförum hans, enda sagðist hann syngja það fyrir börnin sín, og „All Along the Watchtower“ þrungið krafti.
Nokkur börn voru í salnum og hrollur fór um þau þegar Bubbi söng nýja þulu, „Völund á vaðlinum“, um drauginn sem býr á Vitaðsgjafa – en veiðimenn ættu að kannast við það örnefni, enda einn kunnasti veiðistaðurinn á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal, sem söngvarinn heldur mikið upp á.